Í liðinni viku birtist þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í Hagtíðindum og þá birti ASÍ endurskoðaða þjóðhagsspá sína en áður hafði Seðlabanki Íslands birt þjóðhagsspá sína í Peningamálum sem komu út í maí. Flestir óska þess væntanlega að sérfræðingunum skjöplist og helst hrapallega í spám sínum um vinnumarkaðinn enda reikna þeir með langvarandi og miklu atvinnuleysi og mun meira en hér hefur áður þekkst. Þannig má nefna að ASÍ gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði enn um 8% 2012 og um 7% 2013. Það er þó kannski huggun harmi gegn að Samtök atvinnulífsins telja vinnumarkaðinn vera kröftugri en reiknað var með sem aftur sé vísbending um að meiri skriður sé í hagkerfinu en sérfræðingar Seðlabanka, Hagstofu og ASÍ geri sér grein fyrir.

Hóflegur hagvöxtur

Þegar helstu stærðir í spám Seðlabanka, Hagstofunnar og ASÍ eru bornar saman skakkar auðvitað nokkru, einkum þegar lengra frá líður. Það breytir þó ekki að heildarmyndin af þróun efnahagsstærða í íslenska hagkerfinu er um margt svipuð hjá þessum þremur aðilum en hún er í megindráttum þessi: Botninum verður náð næsta vetur en síðan mun heldur fara að rofa til. Því fer þó víðsfjarri að við mönnum blasi alheiður himinn. Þannig gera allir þrír ráð fyrir að verg landsframleiðsla, eða hagvöxtur á mannamáli, muni enn halda áfram að dragast saman á þessu ári en að hann taki síðan að glæðast eitthvað á næsta ári og árið 2012. Þó er gert ráð fyrir hóflegum hagvexti 2011 og 2012, a.m.k. í samanburði við tímabilið 2002-2008, eða á bilinu 2% til 3,4%.