Svissneska lyfjafyrirtækið, Novartis, segist reiðubúið til að selja Gerber Products, sem er einn þekktasti og stærsti barnamatvælaframleiðandi heims, og hefur matvælafyrirtækið Nestlé verið nefnt sem mögulegur kaupandi, segir í frétt Dow Jones.

Novartis er núþegar í viðræðum við Nestlé um sölu á heilsumatvælaframleiðslu Novartis. Aðilar sem eru nákomnir málinu segja að Nestlé íhugi nú að kaupa Gerber sem hluta af þeim samningi.

Framkvæmdarstjóri Novartis, Daniel Vasella, sagði að ef fyrirtækinu bærist boð í Gerber, yrði það metið hvort það væri fyrirtækinu í hag, en bætti þó að engin tilboð hefðu borist.

Talið er að Gerber sé metið á meira en þrjá milljarða Bandaríkjadali, eða um 205 milljarða króna, og að samanlagt andvirði Gerber og heilsumatvælaframleiðslu Novartis sé á bilinu fjórir til fimm milljarðar Bandaríkjadalir.