Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur ákveðið að fjárfesta í uppbyggingu fyrir þriðju kynslóð farsíma í Póllandi. Novator á 70% hlut í félaginu Netia Mobile sem hefur nú fengið staðfesta úthlutun á tíðnum fyrir þriðju kynslóð farsíma í Póllandi. Félagið Netia á 30% hlut í Netia Mobile á móti Novator og tengdum fjárfestum. Samkvæmt frétt frá Reuter er fjárfesting Netia í félaginu upp á 90 milljónir evra eða tæpa sjö milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Netia rekur nú þegar fastlínuþjónustu í Póllandi en hyggst færa sig með þessu yfir í farsímaþjónustu. Það er gert til þess að bjóða upp á alhliða fjarskiptaþjónustu. Samkvæmt frétt Reuters gerir félagið ráð fyrir að hafa nokkrar tekur af því að þjónusta Netia Mobile eða um tvo milljarða króna á ári. Ljóst er að mikil fjárfesting býður hins nýja félags en Netia Mobil þurfti að greiða hátt í sjö milljarða fyrir leyfið. Það mun verða hlutverk Novator að leiða fjárfestahópinn sem mun fjármagna uppbygginguna.

Útboðið á tíðnunum vakti mikla athygli í Póllandi og gagnrýndi forstöðumaður pólska fjarskiptaeftirlitsins, Witold Grabos, þau þrjú farsímafélög sem starfa fyrir á markaðinum. Það eru Polkomtel, PTC og TPSA Centerel og sagði Grabos, þegar hann greindi frá úthlutuninni, að félögin hefðu með lagaklækjum reynt að útiloka aðkoma nýs aðila inn á markaðinn.

Netia Mobil mun nota háhraðatengingar samkvæmt stöðlum þeim sem ríkja með þriðju kynslóð farsíma. Verður sent út á svokölluðum UMTS-tíðnum. Þannig verður t.d. hægt að senda myndir í gegnum farsíma.