Novator Telecom Poland, félag sem stjórnað er af Björgólfi Thor Björgófssyni, hefur gert kauptilboð í 10% hlut í pólska símafélaginu Netia.

Fyrr í þessum mánuði gerði Novator Telecom Poland kauptilboð í 13% hlut í félaginu. Tilboð Novators var 8% yfir verði hvers hlutar við lokun markaðar föstudag þann 16. desember, eða 6,15 pólsk zloty, en tilboðið barst þann 19. desember. Hluthafar í Netia geta gengið að tilboði Novator frá 29. desember til 13 janúar 2006

Novator stefnir að því að eignast um 25% af hlutafé Netia. Markaðsvirði þess hlutar er nærri 150 milljónum evra eða um 12 milljarðar íslenskra króna.

Sérfræðingar telja að Novator reyni að ná yfirtökum í Netia á næsta ári. Anne Bossong, sérfræðingur hjá CAIB Securities í London, segir að búast megi við hærra tilboði í bréf félagsins þá.

"Þeir (Novator) munu reyna að ná í sem flest bréf í Neta með kauptilboðinu en ég efast um að félagið muni ná yfirráðum í Netia. Ef þeim tekst ekki á ná yfirráðum nú þá má vænta þess að annað kauptilboð berist á næsta ári, og það verður hátt," segir Bossong.

Netia á um 30% í Netia Mobile þar sem Novator á 70%. Því félagi var úthlutað fyrr á þessu ári leyfi til rekstrar þriðju kynslóðar farsímakerfa. Undirbúningur þeirrar starfsemi er þegar hafinn undir merkjum félags sem heitir P 4. Stefnt er að þjónusta þess fyrirtækis hefjist seint á næsta ári.

Netia var stofnað árið 1990 og hóf starfsemi á símamarkaði í Pólandi árið 1994. Félagið í dag er með um 30% hlutdeildar á fastlínumarkaði í Pólandi og hefur forystu á sviði virðisaukandi símaþjónustu þar í landi. Stærsti hluthafi við stofnun félagsins var TeliaSonera en það félag seldi 48% hlut sinn árið 2003 þegar Netia var endurfjármagnað. Netia er nú í dreifðri eign og hafa enskir fjárfestingasjóðir forystu í félaginu um þessar mundir.

Björgólfur Thor og Novator eiga þegar verulegra hagsmuna að gæta á fjarskiptamarkaði í Finnlandi, Tékklandi, Búlgaríu og Grikklandi auk Pólands.