Novator hefur ákveðið að fresta tillögum sínum um skipulagsbreytingar á finnska símafyrirtækin Elisa en sækist samt eftir tveimur stjórnarsætum í fyrirtækinu.

Í nóvember s.l. óskaði Novator eftir því að haldinn yrði aðalfundur fyrirtækisins þar sem félagið vildi koma að sínum tillögum um skipulagsbreytingar á fyrirtækinu. Í tilkynningu frá Novator telur félagið að slíkt hefði verið merki um metnað félagsins til að efla fyrirtækið, m.a. skipulag þess og þjónustu.

Með tilliti til þess að hægt verði að þróa áætlanir Novators fyrir fyrirtækið og kynna þær fyrir hluthöfum hefur félagið ákveðið að fresta breytingartillögum sínum, segir í fyrrnefndri tilkynningu. Félagið segir að umræða um skipulagsbreytingar þær er félagið ætlaði sér að boða hefur valdið óróa og misskilningi. Novator ætli sér að efla fyrirtækið og bæta þjónustu þess við viðskiptavini. Þá telur Novator að með frestun á skipulagsbreytingum muni gefast betri tími til að undirbúa þær og muni í leiðinni efla jákvæða umræðu um málið til betri vegar.

Novator lýsir yfir vonbrigðum sínum með viðtökur stjórnar fyrirtækisins við tillögum félagsins til þessa. Í tilkynningunni segir að Novator hafi trú á fyrirtækinu og telur að það hafi hingað til lagt fram góðar og verðugar tillögur til betri reksturs. Hins vegar megi enn gera betur og breytingar þurfi að eiga sér stað.

Þrátt fyrir að fresta breytingartillögum sínum mun Novator sækist eftir tveimur stjórnarsætum í fyrirtækinu á aðalfundinum.

Björgólfur Thor Björgólfsson segir að Elisa símafyrirtækið geti verið mun betur rekið en nú og telur að sú reynsla sem Novator býr yfir í símarekstri muni gagnast fyrirtækinu vel. Þá kemur fram að Orri Hauksson muni koma inn í stjórn fyrirtækisins í öðru stjórnarsætinu sem félagið biður um.

Björgólfur tekur fram að ekki standi til að skipta fyrirtækinu upp né að sameina það öðru fyrirtæki.