Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur óskað eftir upplýsingum frá einkavæðingarnefnd Serbíu um sölu á 65% hlut ríkisins í næststærsta símafyrirtæki landsins, Telekom Srpske, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Fyrirtækið er staðsett í Bosníu í héraðinu Srpske, sem stjórnað er af Serbíu

Einkavæðingarnefnd Serbíu greindi frá áætlunum um sölu á hlut sínum í Telekom Srpske í síðusta mánuði og gerir ráð fyrir að fá um 400 milljónir evra, sem samsvarar tæplega 36 milljörðum króna, fyrir eignarhlutinn. Heildarhagnaður félagsins jókst um 23% á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 í 41,25 miljónir marka (21 milljón evra), en heildartekjur námu 167 milljónum marka.

Einnig er talið að Telekom Serbia, Mobilkom Austria, ungverska símafyrirtækið Magyar Telekom, rússneska símafélagið Sistema, norska félagið Telenor, svissneska félagið Valiva og PlanetSky frá Kýpur hafi óskað eftir upplýsingum um söluna á eignarhlutnum í Telekom Srpske. Hugsanlegir kaupendur verða að skila inn kauptilboðum fyrir 1. október næstkomandi.

Fyrirtækið er með um 35% markaðshlutdeild á landsíma- og farsímamarkaði í Bosníu. Tvö önnur símafyrirtæki eru í Bosníu. Stærsta félagið er BH Telecom, en símafyrirtækið HT Mostar er heldur minna en Telekom Srpske. BH Telecom og HT Mostar eru stærst í króatíska hluta Bosníu, þar sem um 66% íbúa landsins býr. Einnig hefur verið rætt um að einkavæða BH Telecom.

Novator hefur lagt áherslu á fjárfestingar í símafélögum, sérstaklega í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið hefur tryggt sér kaupréttinn af 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu Bulgarian Telecommunicatons Company (BTC), fjárfest í pólska símafyrirtækinu Netia og gríska fjarskiptafyrirtækinu Forthnet. Tékkneska fjárskipatafyrirtækið Cescke Radiokommunicace (CRa) er í eigu Novators. CRa gerði tilraun til að kaupa 75% hlut ungverska ríkisins í margmiðlunarfyrirtækinu Antenna Hungaria í fyrra.