Fyrirtækinu Nox Medical hefur gengið mjög vel að selja tæknibúnað sinn undanfarið og stefnir allt í að salan á þessu ári sprengi allar áætlanir þeirra. Frá því að búnaðurinn fór í sölu í mars hefur hann selst langt umfram áætlanir fyrirtækisins og er nú gert ráð fyrir því að velta fyrirtækisins af þessum vörum verði yfir 120 milljónir íslenskra króna á þessu fyrsta söluári, að sögn Sveinbjarnar Höskuldssonar framkvæmdastjóra.

Félagið hefur á þremur árum þróað og sett á markað fullkomið svefngreiningartæki fyrir börn jafnt sem fullorðna.  Búnaðurinn er nú þegar kominn á markað í Evrópu og Bandaríkjunum í gegnum lækningavörudreifingarfyrirtækið CareFusion.