Staða markaðsskuldabréfa í lok september nam tæpum 1.853 milljörðum króna og hækkaði um rúman 51 milljarð á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.557 milljörðum króna og hefur því hækkað um rúma 295 milljarða frá áramótum.

Þá hefur staða markaðsskuldabréfa hækkað um tæpa 325 milljarða á milli ára að því er fram kemur í hagtölum Seðlabankans.

Mestu munaði um hækkun í skráðum erlendum skuldabréfum sem hækkuðu um tæpa 57 milljarða króna á milli mánaða í september en slík bréf hafa lítið hreyfst í tæp tvö ár. Um er að ræða leiðréttingu á tölum frá áramótum að sögn Seðlabankans en virði erlenda skuldabréfa nemur nú rúmlega 89 milljörðum króna.

Staða óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði um rúma 6 milljarða á milli mánaða í september og er þetta fyrsta lækkunin á milli mánaða frá því í júní 2009. Í lok september nam virði óverðtryggða ríkisbréfa um 601 milljarði króna. Virði þeirra  hefur þó aukist um tæpa 300 milljarða á einu ári, mest allra skuldabréfa.

Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði þó um tæpa 5,9 milljarða á milli mánaða í september og hefur þá hækkað um tæpa 42 milljarða frá áramótum.

Skráð bréf atvinnufyrirtækja lækkaði um tæpa 4,7 milljarða króna í september en þá nam staða þeirra rúmum 139 milljörðum króna. Bréfin hafa minnkað nokkuð á milli ára, eða um rúma 104 milljarða. Lækkunin átti sér að mestu stað á fyrri hluta þessa árs en staða þeirra hefur þó hækkað lítillega í sumar og í haust.

Þá lækkaði staða íbúðabréfa um rúman hálfan milljarð króna á milli mánaða í september en staða þeirra var þá tæpir 745 milljarðar króna. Staða íbúðabréfa hefur þá hækkað um rúma 57 milljarða á milli ára.

Mikil lækkun á markaðsvíxlum

Markaðsvíxlar lækkuðu um rúma 12 milljarða króna og hafa ekki hreyfst jafn mikið í tæpt hálft annað ár. Staða þeirra var í lok mánaðarins tæpir 62 milljarðar króna og hefur lækkað um rúma 8 milljarða á milli ára. Nær alla lækkunina má rekja til lækkunar ríkisvíxla.

Hlutabréf lækka

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni lækkuðu um tæpa 10,3 milljarða króna á milli mánaða í september og nam staða þeirra í lok mánaðarins rúmum 234 milljörðum króna. Skráð hlutabréf  hafa þó hækkað um rúma 30 milljarða á milli ára.

Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um 26,6 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hefur hækkað um 3,9 milljarða á milli ára.