Landflutningar - Samskip tóku nýja vöruafgreiðslu fyrirtækisins í formlega notkun nýverið. Miðstöðin er við Hafnargötu 5 á Reyðarfirði en töluverðar breytingar voru gerðar á húsnæðinu og lóð þess til að laga það að starfsemi Landflutninga.

Útisvæðið við Hafnargötuna er þrefalt stærra en á gamla staðnum sem bætir athafnasvæði fyrirtækisins og auðveldar lestun og losun bílanna. Töluverð umsvif eru hjá Landflutningum á Austurlandi þar sem fyrirtækið er með afgreiðslu bæði á Egilsstöðum og Reyðarfirði auk umboðsmanna víðar. Daglegar ferðir eru frá Akureyri og Reykjavík til Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Starfsfólk annast síðan dreifingu á vörum til viðtakenda í nálægum byggðarlögum.

Björn Ármann Ólafsson, rekstrarstjóri Landflutninga á Austurlandi, segir umsvif Landflutninga á Austurlandi fara vaxandi og tækifæri séu fyrir Landflutninga til að auka þjónustu sína á Austurlandi enn frekar. „Við höfum þegar bætt við einu stöðugildi í afgreiðslu á Reyðarfirði og útkeyrslu á vörum til viðskiptavina okkar og ef fer sem horfir sjáum við fram á frekari fjölgun þegar líður á árið,” segir Björn Ármann Ólafsson.