RSE hefur í samstarfi við Bókafélagið Uglu gefið út nýtt alþjóðlegt rit um sjávarútvegsmál: Advances in Rights Based Fishing – Extending the Role of Property in Fisheries Management. Á meðal höfunda eru fræðimenn í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í ritinu eru settar fram veigamiklar röksemdir, segir í fréttatilkynningunni, fyrir því að hlutur eignarréttar við stjórn fiskveiða verði aukinn. Því er haldið fram að eignarréttur við stjórn fiskveiða, eins og eignarréttur almennt, hafi reynst ákaflega skilvirkt og sveigjanlegt tæki til að auka hagkvæmni veiða svo lengi sem gæði eignarréttarins hafi verið nægileg.

Meðal annars er að finna í ritinu tilraunir til að varpa ljósi á hvernig eignarréttarkerfi við fiskveiðar hafa aukið samfélagslegan ávinning af fiskveiðum og hvernig unnt sé að bæta slík kerfi þannig að auknum ávinningi sé náð.

Ritstjórar eru Birgir Þór Runólfsson dósent við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ og Ragnar Árnason prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ.