Nýr kafli er að hefjast í rafbílavæðingu íslenska bílaflotans. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir þetta byltingu því rafvæðing þessara 23 bíla muni spara um hálfa milljón lítra af dísilolíu á ári og draga úr koltvísýringslosun um 1.300 tonn.

Á hverjum sólahring eru líklega um eða yfir 100 flutningabílar á ferð með vörur um landið enda fer langstærsti hluti vöruflutninga á Íslandi fram á landi og lítill hluti fluttur með strandsiglingum. Vöruflutningabílarnir eru knúnir áfram með dísilolíu en nú er að verða breyting á. Framundan er ný bylting í rafbílavæðingu landsins. Nú hafa ellefu fyrirtæki staðfest kaup á 23 rafknúnum vöruflutningabílum frá Velti, sem er Volvo atvinnutækjasvið Brimborgar.

Bílarnir verða ýmist útbúnir sem dráttarbílar, bílar með vörukassa, með krókheysi, sem steypubílar og bílar með palli með og án bílkrana. Heildarþyngd bílanna, sem verða afhentir fyrirtækjunum á næstu 4 til 12 mánuðum, er 16 tonn, 26 tonn eða 44 tonn.

Verða bílarnir með 1 til 3 rafmótora, sem skila allt að 666 hestöflum, en fjöldi mótora fer eftir stærð og þyngd bílanna. Rafhlöðurnar munu rúma frá 265 kWst til 540 kWst og skila allt að 380 kílómetra drægni.

Að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, eru rafknúnir vörubílar 2,7 til 3,6 sinnum dýrari en sambærilegir dísilbílar. Miðað við það má ætla að verðið á rafknúnu bílunum sé frá 40 til 60 milljónir króna.

Auk þess muni umtalsverður kostnaður fara í uppsetningu hleðsluinnviða hjá rekstraraðilum bílanna, sem geri það að verkum að kaupin séu bæði fjárhagslega og tæknilega stórt skref fyrir þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast alla fréttina hér.