Ígló er ný íslensk barnafatalína er komin á markað. Þær Lovísa og Helga Ólafsdætur stofnuðu fyrirtækið Ígló fyrir ári síðan, rétt áður en kreppan skall á og nú hefur fyrsta framleiðslan litið dagsins ljós.  Í tilkynningu segir að það sem er sérstakt við vörurnar er að þær eru hannaðar út frá þörfum barnanna.

Vörurnar sem eru komnar núna í verslanir er flíslína með jökkum, buxum, vettlingum og húfum fyrir bæði stráka og stelpur á aldrinum eins til átta ára.

,,Við lögðum mikla áherslu á að þessi lína væri góð og hlý í takt við íslenskar aðstæður og myndu höfða til barna, þ.e. að þetta væru fötin sem að þau myndu sjálf velja sér á morgnanna“, segir Lovísa í tilkynningu og Helga bætir við: ,,Fötin eru mjög praktískt hönnuð, peysurnar eru t.d. síðari að aftan þannig að þegar þau beygja sig þá kemur ekki kuldi á milli, það er stroff á buxunum og ermunum, svo að fötin geti stækkað með börnunum, svo eru þau litrík og með krúttlegum smáatriðum eins og krakkar vilja“.

Þær eiga báðar börn á aldrinum 4 og 7 ára og fá innblástur að hönnun sinni frá þeim.

Ólíkur bakgrunnur styrkir samstarfið.

Í tilkynningu kemur fram að Lovísa og Helga áttu sér þennan sameiginlegan draum að hanna sína eigin barnafatalínu, en þekktust aðeins lítillega í gegnum vinafólk þegar þær hófu samstarfið. Þær hafa ólíkan bakgrunn sem gerir þær sterkari saman. Lovísa er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað sem slíkur hjá gamla Búnaðarbankanum,  Landsbankanum og sem fjármálaráðgjafi hjá Deloitte.

Helga lærði fatahönnun og hefur starfað bæði í Kaupmannahöfn og London. Hún hefur starfað m.a. hjá Ilse Jacobsen í Danmörku og All Saints í London. Helga hefur áður látið að sér kveða á Íslandi, en hún hefur meðal annars unnið fyrir Nikita, Latabæ og svo hannaði hún barnafatalínuna Snú Snú eftir að hafa lent í 2 sæti í hönnunarsamkeppni Hagkaupa fyrir nokkrum árum síðan. Ásamt því að hanna Ígló fötin hannar Helga fyrir I´say í Danmörku sem selur kvenfatnað um öll Norðurlöndin.

Stofnun fyrirtækis á krepputímum .

,,Þetta er lítil lína og er minni en fyrirtæki eru almennt að byrja með en við ákváðum vegna efnahagsástandsins að taka ekki of stór skref í einu“ segir Helga og Lovísa bætir við: ,, Við ætlum að byggja þetta fyrirtæki upp skynsamlega og rólega, sem eru kannski gamaldags gildi, en við erum báðar þolinmóðar að eðlisfari. Í næstu línu sem kemur fyrir jól verða einnig í boði úlpur á stráka og stelpur og þannig aukum við vöruúrvalið jafnt og þétt“.

Þær eru jafnframt að hanna nýjan skólafatnað í samvinnu við Hjallastefnuna og horfa með bjartsýni til framtíðar.

Hægt er að fá Ígló vörurnar í verslununum, 3 Smárum á Laugaveginum, Snúðum og snældum á Selfossi og Sirka á Akureyri.