Shaanxi Green Energy, félag í eigu Enex Kína og kínverska fyrirtækisins Sinopec Star hefur skrifað undir samkomulag við yfirvöld Xiong sýslu í Kína um uppbyggingu jarðvarmaveitu.

Áætlað er að jarðvarmaveitan hiti um 250.000 fermetra af húsnæði á þessu ári og milljón fermetra 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geysi Green Energy en Enex Kína er jarðhitafélag í eigu Geysis Green Energy (75%) og Reykjavik Energy Invest (25%).

Fram kemur að hitaveitan mun hefja rekstur 15. nóvember í borginni Baoding í Xiong sýslu í Hebei héraði skammt suður af höfuðborginni Peking. Uppbygging hitaveitunnar er komin vel af stað en áætlað er að hita 250.000 til 300.000 fermetra húsnæðis á þessu ári og um eina milljón fermetra haustið 2010.

„Uppbygging og rekstur veitunnar er í höndum svæðisskrifstofu Shaanxi Green Energy (SGE) í Hebei héraði sem mun vinna að áframhaldandi þróun verkefnisins í Xiong sýslu en gert er ráð fyrir að stærð jarðvarmaveitunnar verði allt að þrjár milljónir fermetra fyrir 2012,“ segir í tilkynningunni.

„Í Xiong sýslu búa um 354.000 manns og þar er að finna lághitasvæði þar sem hitastig vatns er á bilinu 55-86°C á 500-1500 metra dýpi. Þegar jarðvarmaveitan hefur rekstur munu loftgæðin á svæðinu aukast þar sem að vanalega er notast við kolakyndingu. Með því að draga úr notkun kolakyndingar minnkar útblástur gróðurhúsalofttegunda og því getur verkefnið notið kolefniskvóta sem eykur arðsemina af rekstrinum.“

Þá kemur fram að undirskrift samkomulagsins milli SGE og Xiong sýslu fór fram við hátíðlega athöfn þann 28. október í Xiong sýslu, þar sem fyrsti hluti hitaveitunnar er í byggingu. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Kína var viðstaddur ásamt fjölmennum hópi starfsmanna frá Baoding borg og Xiong sýslu, Hebei héraði, Sinopec Star, Enex Kína, Geysi Green Energy og Orkuveitu Reykjavíkur.

Shaanxi Green Energy (SGE) var stofnað árið 2006 af kínverska olíufélaginu Sinopec (51%) og Enex Kína (49%) til sameiginlegrar uppbyggingar jarðvarmaveitna í Kína. Enex Kína sem er í eigu Geysis Green Energy (75%) og Reykjavik Energy Invest (25%) setti á fót skrifstofa í Kína árið 2005 og síðan þá hefur félagið unnið að uppbyggingu jarðvarmaveitu í Xianyang borg í Shaanxi héraði.

Jarðvarmaveitan í Xianyang hitar nú upp um 1.2 milljón fermetra húsnæðis (100 MWth) og hefur verið í rekstri síðan 2006. Sú veita jafnast á við hitaveituna i Reykjanesbæ að umfangi og kemur í veg fyrir losun 48.000 tonna  koldíoxíðs árlega samanborið við kolakyndingu. Íslenskar verkfræðistofur, m.a. Verkís og ÍSOR hafa unnið að verkefnum Enex Kína sem koma til með að aukast á næstunni enda eru fleiri samskonar jarðhitaverkefni í farvatninu þar sem Kína býr yfir miklum jarðhita sem nýta má til húshitunar. Starfsemi á vegum Geysis og Enex Kína í Kína hefur verið sameinuð og er aðsetur starfseminnar í Shanghai