*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 10. júlí 2020 12:33

Ný samfélagsmiðstöð á Flateyri stofnuð

Stofnfundur Skúrinnar var haldinn á Flateyri í gær, 9. júlí. Skúrin er samfélagsmiðstöð sem er ætlað að verða suðupottur hugmynda og viðhorfa.

Ritstjórn

Stofnfundur Skúrinnar var haldinn á Flateyri í gær, 9. júlí. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Skúrin er samfélagsmiðstöð sem er ætlað að verða suðupottur hugmynda og viðhorfa, fyrirtækjahótel sem leigir út skrifstofuaðstöðu og frumkvöðlasetur fyrir nýsköpun og þróun. Skúrin verður frá 1. september opin fyrir samskipti, sköpun og frumkvæði fyrir þá sem þora. Þegar hefur verið gengið frá útleigu á húsnæði sem tryggir rekstur félagsins.

Hluthafar í Skúrinni eru 36 talsins sem leggja félaginu til 7 milljónir í hlutafé. Auk Ísafjarðarbæjar, Arctic Fish, Lýðskólans á Flateyri, Litla býlis, Húsa og fólks, Tröppu og Bræðranna Eyjólfssonar leggja 29 einstaklingar fram hlutafé. Upphaflega var markmiðið að safna 5 milljónum í hlutafé á móti 11 milljóna lánsvilyrði frá Landsbankanum til fjármögnunar á félaginu en Flateyringar gerðu gott betur. Hið nýstofnaða félag getur því lækkað fyrirhugaða lántöku sem þessu nemur.

Skúrin er skapandi dæmi um bjarta framtíð þorps á Vestfjörðum. Skúrin verður til húsa í gömlu símstöðinni á Flateyri. Nafnið vísar til atvinnusögu Flateyrar en orðið er vestfirskt, skúr í kvenkyni s.s. beitningaskúr.

Skúrin er sjálfssprottið samstarfsverkefni einstaklinga og fyrirtækja á Flateyri í samstarfi við Ísafjarðarbæ um rekstur samfélagsmiðstöðvar á Flateyri. Skúrin mun hýsa höfuðstöðvar Lýðskólans, skrifstofu Ísafjarðarbæjar á staðnum, skrifstofu fyrir hverfisráð Önundarfjarðar, skrifstofu verkefnastjóra ríkisstjórnarinnar um málefni Flateyrar og aðstöðu framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga ásamt aðstöðu fyrir fjölmörg fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem lifa og starfa á Flateyri eða dvelja þar reglulega. Jafnframt er boðið upp á aðstöðu fyrir fólk og frumkvöðla til lengri og skemmri tíma sem vill koma og upplifa einstaka kraftbirtingu og sköpun Önundarfjarðar.