Eimskip, dótturfélag Avion Group, hefur fest kaup á stórflutningaskipi sem ber nafnið Laxfoss. Skipið er sérhæft flutningaskip til flutninga með fóðurvörur og aðra stórflutninga og verður í flutningum milli Íslands og Evrópu.

Stórflutningar hjá Eimskip hafa aukist mikið að undanförnu og er Laxfoss annað flutningaskipið sem Eimskip kaupir á skömmum tíma. Fyrir átti Eimskip skipið Trinket sem hefur fengið nafnið Írafoss. Eimskip tók við því skipi á síðasta ári en áður hafði Eimskip leigt skipið í tæp átta ár.

Laxfoss er 82 metrar að lengd og hefur 2.500 tonna burðargetu. Skipið var smíðað í Þýskalandi árið 1995 og hét áður Stroombank.

Stórflutningaskipin sinna alþjóðlegum verkefnum á N-Atlantshafi, þar á meðal flutningum á fóðri til Íslands og útflutningi á fiskimjöli frá Íslandi.

Eimskip annast meðal annars flutninga SR-mjöls hf., Fóðurblöndunnar, Mjólkurfélags Reykjavíkur og Kornax til og frá Íslandi og festi félagið kaup á Laxfossi til að sinna þessum flutningum meðal annarra. Eimskip hefur notast við leiguskip til að annast þessa auknu flutninga hingað til.

29 skip eru nú í heildarflota Eimskips og að auki eru fjögur í smíðum.

Eimskips býður heildarþjónustu í flutningum og geymslu á hitastýrðum matvælum. Þjónustunet Eimskips samanstendur af 54 skrifstofum félagsins í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu, 29 skipum og 15 frystigeymslum í Evrópu, N-Ameríku og Asíu, ásamt ýmsum dótturfélögum og samstarfsaðilum.