Í lok endurskipulagningar Actavis Group, sem nú er á lokastigum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, verður skipuð 7 manna stjórn félagsins.

Þar mun Deutsche Bank eiga þrjá stjórnarmenn og Novator tvo. Loks verður einn stjórnarmaður fyrir hönd íslensku bankanna.

Þess utan mun Claudio Albrecht, sem nú er forstjóri Actavis Group, jafnframt verða starfandi stjórnarformaður og vera þannig sjöundi stjórnarmaðurinn.

Þannig verður í raun enginn ráðandi stjórnarmeirihluti þegar hin nýja stjórn hefur verið skipuð.

Gera má ráð fyrir því að ný stjórn verði skipuð í byrjun næsta árs en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Björgólfur Thor Björgólfsson, sem í dag er stærsti eigandi Actavis, sitja áfram í stjórn félagsins fyrir hönd Novator.

Viðbót : Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins kemur fram að Björgólfur Thor muni víkja úr stjórn Actavis. Það er ekki rétt. Björgólfur Thor mun, eins og áður hefur komið fram, víkja sem stjórnarformaður, en áfram sitja í stjórn félagsins fyrir hönd Novator.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .