*

föstudagur, 30. júlí 2021
Innlent 26. mars 2020 08:00

Ný streymisveita til Íslands

Norræna streymisveitan Viaplay er væntanleg til Íslands og mun bjóða upp á þjónustu sína hér á landi frá og með 1. apríl.

Sveinn Ólafur Melsted
Anders Jensen, forseti og forstjóri Nordic Entertainment Group.
Aðsend mynd

Norræna afþreyingarfyrirtækið Nordic Entertainment Group (NENT Group), sem skráð er í kauphöll Nasdaq í Stokkhólmi og er með höfuðstöðvar í Svíþjóð, mun hefja Viaplay streymisþjónustu sína á Íslandi þann 1. apríl næstkomandi. Viaplay áhorfendur á Íslandi munu því geta notið sérstakrar samsetningar af myndefni, kvikmyndum, þáttaröðum og barnaefni streymisveitunnar, ásamt því sem íþróttir munu bætast við með tímanum. Viaplay mun í kjölfar þessa vera aðgengilegt á öllum fimm Norðurlöndunum.

„Viaplay er norræn árangurssaga um streymi og það er eðlilegt næsta skref í okkar þróun að sækja á íslenskan markað. Frá 1. apríl munum við bjóða áhorfendum á Íslandi meira hágæða norrænt myndefni en nokkur annar aðili, auk verðlaunakvikmynda og þáttaraða sem og viðurkennds barnaefnis og beinna útsendinga af ókomnu íþróttaefni í heimsklassa. Viaplay er nú þegar með 1,6 milljónir áskrifenda á norræna svæðinu og er hannað til að stækka hratt. Við hlökkum til að færa áhorfendum á Íslandi okkar einstöku sögur," segir Anders Jensen, forseti og forstjóri NENT.

Hann bendir á að Ísland sé eitt af best tengdu löndum í heimi, þar sem 75% heimila hafi aðgang að 1GB/sek hraða í gegnum ljósleiðara. Þá séu eins og staðan er í dag u.þ.b. 359.000 farsímaáskriftir meðal rúmlega 360.000 íbúa. Núverandi markmið ríkisstjórnar Íslands sé að 99% heimila og fyrirtækja hafi aðgang að a.m.k. 100MB/sek hraða árið 2022. Ísland sé þess vegna tilvalinn markaður fyrir það einstaka og notendavæna streymi sem Viaplay bjóði upp á.

Áskrift fyrir 599 krónur á mánuði

Í tilkynningu þar sem greint er frá fyrirhugaðri komu Viaplay til landsins segir að þáttaraða- og kvikmyndapakki streymisveitunnar muni kosta kr. 599 (4 evrur) á mánuði á Íslandi. Eins og á öðrum mörkuðum NENT samsteypunnar muni Viaplay verða aðgengilegt viðskiptavinum á Íslandi gegnum beinar áskriftir og aðild að áskriftum þriðja aðila.

Efnið sem Viaplay bjóði upp á skiptist í fjóra flokka: Viaplay myndefni, kvikmyndir og þáttaraðir, barnaefni og íþróttir í beinni útsendingu. Búast megi við að viðbótarefni verði bætt inn á hvern Viaplay flokk á næstu mánuðum. Allt Viaplay myndefni og barnaefni muni vera með íslenskum texta eða tali og völdu íþróttaefni verði lýst á íslensku.

NENT samsteypan hafi þegar tryggt sér einkaleyfi hér á landi á sýningarrétti eftirtalinna íþrótta: Formúlu 1, þýsku atvinnudeildanna í fótbolta og handbolta, WTA tennis, Major League hafnabolta, NASCAR, hollensku úrvalsdeildarinnar, dönsku deildarinnar, sænsku Allsvenskan, frönsku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta, frönsku bikardeildarinnar í fótbolta, CONCACAF þjóðakeppninnar, Suður-ameríska bikarsins 2021 og margs fleira.

Meirihluta þessara viðburða hefur þó verið frestað sem stendur vegna kórónuveiru-heimsfaraldursins. NENT samsteypan muni því bjóða upp á Viaplay íþróttapakkann á Íslandi þegar þessir viðburðir verða aðgengilegir á ný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. 

Stikkorð: Ísland NENT streymisveita Anders Jensen Viaplay