Fjárlaganefnd Alþingis mun á morgun kynna aukin útgjöld ríkissjóðs í fjárlögum fyrir næsta ár. Til stóð að það yrði gert í dag en tillögurnar voru ekki fullmótaðar að mati Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar. Því þótti rétt að fresta fundinum til morguns. Þetta kemur fram á mbl.is .

Í Morgunblaði dagsins er því haldið fram að framlög til Landspítalans muni líklega verða hækkuð um einn milljarð. Í fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár hafði þegar verið gert ráð fyrir tæplega tveggja milljarða hækkun og mun ríkisframlag til Landspítala þannig aukast um þrjá milljarða á milli ára, að öllu óbreyttu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kaus að tjá sig ekki um þessi áform við Viðskiptablaðið að svo stöddu.

Tekjur vanáætlaðar um 8-9 milljarða

Í kvöldfréttum RÚV í gær kom fram að tekjur ríkissjóðs verði 8-9 milljörðum hærri á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir í drögum að fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið þykir líklegt að þessum fjármunum verði varið í að hækka húsaleigubætur, auka niðurgreiðslur lyfjakostnaðar og að sjá til þess að hækkun matarskatts verði úr 7% í 11% en ekki 12% eins og áformað hafði verið.