Ný frétta- og upplýsingasíða á ensku um íslenskan sjávarútveg er komin í loftið og ber heitið Fishing the News . Heimasíðan er hugsuð sem samstarfsvettvangur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til þess að koma sínum fyrirtækjum, þjónustu og fréttum á framfæri á erlendri grundu. Inni á síðunni verður hægt að nálgast skrá um íslensk fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegnum beint eða óbeint og þau fyrirtæki verða sett í þá flokka sem við eiga.

Í tilkynningu kemur fram að á síðunni verði hægt að sjá lista yfir öll sölufyrirtækin og hvaða afurðir hvert fyrirtæki selur, öll þau flutningsfyrirtæki sem hér starfa, tæknifyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki, útgerðir og svo framvegis. Á síðunni verður hægt að nálgast upplýsingar og fréttir um allt það sem er að gerast hér á landi í sjávarútvegi.

Meðfram frétta- og upplýsingaveitunni verða birt myndbönd á síðunni, þar á meðal viðtöl við aðila innan sjávarútvegsins og tengdum greinum og vikulega verður sýndur matreiðsluþáttur, þar sem íslenskar sjávarafurðir verða eldaðar af Sigurði Karli Guðgeirssyni matreiðslumanni.