Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað nýja velferðarvakt í stað þeirrar sem stofnuð var árið 2009 og lauk störfum nú í febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins.

Hlutverk velferðarvaktar er að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna. Sérstaklega á að beina sjónum að efnalitlum heimilum og einstæðum foreldrum. Velferðarvaktin á reglulega að afhenda ráðherra skýrslur og vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld.

33 einstaklingar skipa hina nýju velferðarvakt, en það eru talsvert fleiri en sátu í þeirri fyrri. Formaður vaktarinnar er Siv Friðleifsdóttir, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins og ráðherra.