„Ef við horfum aðeins til nýframkvæmda voru þær oftast á bilinu 13-16 milljarðar á ári. Fóru mest í tæpa 32 milljarða árið 2008 en voru 6-7 milljarðar 2011 og 2012,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni eru meiri í ár en undanfarin ár. Þar vegur þyngst framlag til jarðgangagerðar í Norðfjarðargöngum sem og nýsmíði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Gert er ráð fyrir kostnaði við hönnun á ferjunni á þessu ári en áætlað er að ferjan verði tilbúin til siglinga árið 2015. Kostnaðurinn við Herjólf nemur 463 milljónum króna.

Heildarkostnaðurinn við nýframkvæmdir í ár nemur samtals 7.409 milljónum króna. Til viðbótar eru 5.000 milljónir króna til viðhalds mannvirkja.

Hreinn segir samdrátt í ríkissjóði sjást greinilega en heildarfjárveitingar til vegagerðar hafa stórminnkað síðustu ár frá því sem mest var.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.