Tap Nýherja á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 694 milljónum króna samanborið við hagnað upp á 302 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Nýherja.

Þar kemur fram að hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði var 393 milljónir á tímabilinu samanborið við hagnað upp á 489 milljónir á sama tíma í fyrra.

Sala á vöru og þjónustu nam 10.729 milljónum króna jókst um 38% miðað við sama tímabil í fyrra. Þá kemur fram að eiginfjárhlutfall félagsins er 25% eftir 730 milljóna króna gengistap.

„Rekstur grunnstarfsemi Nýherja er samkvæmt áætlun í ársfjórðungnum og skilar ágætri afkomu fyrir fyrstu níu mánuðina. Sama gildir um hluta dótturfélaga hérlendis og fyrir hugbúnaðarstarfsemi erlendis,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja í uppgjörstilkynningunni.

„Tekjur erlendra dótturfyrirtækja Nýherja eru nú um 22% af heildartekjum samstæðunnar og eykur það stöðugleika í rekstri félagsins.“