*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 13. mars 2020 12:41

Nýir aðilar taka við Heilsuborg

Námskeiðahaldi og líkamsrækt áfram í rekstri innan félagsins Heilsuklasinn ehf. Félagið heldur utan um sérfræðiþjónustuna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tryggður hefur verið rekstur fagaðila innan Heilsuborgar í nýju félagi sem hefur fengið nafnið Heilsuklasinn ehf. en eins og Viðskiptablaðið sagði fyrst frá í morgun er félagið Heilsuborg sem rekið hefur starfsemi líkamsræktarinnar og námskeiðanna á leið í gjaldþrot.

Annað félag hefur haldið utan um starfsemi sérfræðilækna, sálfræðinga og sjúkraþjálfara í húsinu, en nú hefur rekstur líkamsræktar og áframhaldandi námskeiða verið tryggður innan Heilsuklasans.

Gunnar Örn Jóhannsson stjórnarformaður Heilsuklasans segir að nú starfi 15 sjúkraþjálfarar, 13 sérfræðilæknar og 12 sálfræðingar með óbreytta þjónustu í Heilskuklasanum í sama húsnæði.

„Það eru góðar fréttir fyrir alla sérfræðinga og skjólstæðinga þeirra sem starfað hafa undir merkjum Heilsuborgar að hægt var að tryggja þessa starfsemi áfram og ekki hafi þurft að koma til stöðvunar á þjónustu,“ segir Gunnar Örn.

„Einnig var mjög gott að það skyldi takast að tryggja rekstur líkamsræktar og námskeiða. Þessi tíðindi hafa heldur engin áhrif á Heilusgæsluna Höfða, Röntgen Domus, Stoð, Apótekarann og aðra fjölbreytta heilsutengda þjónustu sem einnig starfar í húsnæðinu.“