*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 13. mars 2020 10:27

Heilsuborg á leið í gjaldþrot

Félagið tapaði 100 milljónum á tveimur árum — Hefur þetta ekki áhrif á starfsemi lækna og heilsugæslan starfar áfram.

Ritstjórn
Heilsuborg hefur verið til húsa í Bíldshöfða 9, en Mathöllin Höfða er í sama húsnæði.
Aðsend mynd

Félagið Heilsuborg, sem haldið hefur utan um líkamsrækt og námskeið í húsnæði við Bíldshöfða 9, er á leiðinni í gjaldþrot. Samkvæmt ársreikningi 2018 voru 30 stöðugildi hjá félaginu, sem tapaði þá 58,6 milljónum króna, en 47,8 milljónum árið áður. Hefur gjaldþrotið hvorki áhrif á starfsemi sérfræðilækna, sálfræðinga og sjúkraþjálfara í húsinu né heilsugæsluna eða Röntgen Domus en starfsemi þeirra helst óbreytt.

Á miðvikudaginn var tilkynnt um það á facebooksíðu félagsins að skipulagsbreytingar verði hjá félaginu, að allir hóptímar falli niður næstu daga, en áfram verði kennt á öllum námskeiðum nema sms hafi verið sent um annað. Jafnframt verði tækjasalurinn áfram opinn.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir stjórnarformaður Heilsuborgar ehf., staðfesti í morgun í samtali við Viðskiptablaðið að félagið væri á leið í gjaldþrot, en sagði ekki loku fyrir það skotið að annar rekstraraðili tæki yfir reksturinn. Heilsuborg hefur starfað frá árinu 2006.

Fréttin var uppfærða klukkan 11.15 þegar upplýsingar bárust um að gjaldþrotið hefði ekki áhrif á starfsemi sérfræðilækna, sálfræðinga og sjúkraþjálfara í húsinu sem og að heilsugæslan og Röntgen Domus störfuðu áfram.