Stofnað hefur verið nýtt útgáfufélag um útgáfu Vikudags á Akureyri. Hildingur ehf., sem er dótturfélag KEA og Ásprent Stíll eru stofnendur útgáfufélagsins sem hefur keypt allar eignir Vikudags og mun félagið hefja rekstur frá og með áramótum.

Kristján Kristjánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri blaðsins og framkvæmdastjóri útgáfunnar. Nýja útgáfustjórn skipa Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Birgir Guðmundsson,
lektor við Háskólann á Akureyri og G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri
Ásprents Stíls, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ennfremur kemur fram í tilkynningunni að Vikudagur muni taka umtalsverðum breytingum við eigendaskiptin og sé markmiðið að efla og styrkja blaðið á öllum sviðum.