Meðal þess sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 er sérstakur skattur sem leggst á launakostnað eftirlitsskyldra aðila. Undir eftirlitsskylda aðila falla bankar og tryggingafélög. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) funduðu með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í gær vegna skattsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gera núverandi fyrirætlanir ráð fyrir 10,5% skatti ofan á launakostnað. Heimildir herma ennfrekar að skattinum sé ætlað að skila fjórum til fimm milljörðum í ríkiskassann.

Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, staðfestir við Viðskiptablaðið að skatturinn sé eitt þeirra atriða sem rædd eru í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Frumvarpið verður kynnt 1. október. Huginn vildi ekki staðfesta að skattprósentan sem nú sé litið til sé 10,5%. Endanlegar tölur muni koma fram í frumvarpinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.