Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá er einn af eignedum í nýjum hluthafahópi MP banka Joe Lewis, annar aðaleigandi enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur. Hann er 75 ára gamall Breti sem býr á Bahamas-eyjum.

Lewis efnaðist mikið á gjaldeyrisviðskiptum á áttunda áratug síðustu aldar. Hann er í dag stærsti einstaki eigandi Tavistock Group, sem á meira en 175 fyrirtæki í yfir 15 löndum. Á síðustu árum hafa kaup hans á enska knattspyrnuliðinu Tottenham Hotspur vakið mesta athygli. Lewis keypti Tottenham í gegnum Enic, sem hann á með Daniel Levy, með lánsfé frá Kaupthing Singer & Friedlander.

Í lánayfirliti Kaupþings frá september 2008 segir að Lewis sé „að sögn gífurlega auðugur og er skotmark frekari viðskipta“. Lewis keypti gríðarlega stóran hlut í Bear Sterns á árinu 2007. Áætlað er að Lewis hafi tapað 1,2 milljörðum dala á fjárfestingunni. Auður Lewis er metinn á um 3 milljarða dali, um 340 milljarða króna, og situr hann í 347. sæti yfir ríkustu menn heims á lista Forbes fyrir árið 2011. The Sunday Times setur hann auk þess í 17. sæti yfir ríkustu Bretana.