Fyrrum herforinginn Abdel Fattah el-Sisi sór í dag embættiseið sem nýr forseti Egyptalands og mun gegna embættinu næstu fjögur árin hið minnsta. Hann fékk 96 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem haldnar voru í maí en kosningaþátttaka var undir 50 prósent.

Mikill órói hefur einkennt pólitískt landslag Egyptalands síðan Mohamed Morsy, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta landsins var steypt af stóli fyrir tæpu ári. El-Sisi var stjórnandi hersins sem steypti Morsy af stóli.

Nýi forsetinn sagði að valdaskiptin núna væru friðsamleg og lýðræðisleg, sem væri mikill áfangi í sögu Egyptalands. Aldrei í gegnum árþúsunda sögu landsins hefði friðsamlegt og lýðræðislegt framsal valds átt sér stað. El-sisi sagði jafnframt að hann vildi leiða landið í átt réttlætis, öryggis og velmegunar.

BBC greindi frá.