Almar Guðmundsson hagfræðingur hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Eignastýringar Íslandsbanka. Hann tekur við af Sigurði B. Stefánssyni framkvæmdastjóra þann 1. september nk. Sigurður verður sjóðstjóri Reykjavik Global Hedge Fund, sem hleypt verður af stokkunum í maí. Hann mun gegna stöðu framkvæmdastjóra Eignastýringar til 1. september.

Almar Guðmundsson hóf störf hjá Íslandsbanka eftir að hafa lokið BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1997. Hann starfaði við verðbréfamiðlun hjá FBA á árunum 1998 og 1999. Hann gegndi starfi forstöðumanns Greiningar FBA og síðar Íslandsbanka hf. frá árinu 2000 til 2003. Almar lýkur MBA námi frá London Business School í júní 2005 og kemur þá til starfa hjá Eignastýringu.

Sigurður B. Stefánsson sjóðstjóri ISB Reykjavik Global Hedge Fund

Sigurður B. Stefánsson verður sjóðstjóri í nýjum sjóði, Reykjavik Global Hedge Fund. Hann mun einnig sinna sérverkefnum fyrir Eignastýringu Íslandsbanka. Reykjavik Global Hedge Fund verður fjármagnaður bæði með eigin fé og lánsfé og gerður upp í íslenskum krónum. Sjóðurinn mun ávaxta eignir sínar að hluta innanlands og að hluta erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Sigurður hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans frá árinu 1986 er hann réðst sem framkvæmdastjóri til VÍB hf. við stofnun þess.

Eignastýring Íslandsbanka annast ávöxtun fjármuna fyrir einstaklinga og fagfjárfesta. Í þjónustunni felst ráðgjöf og ávöxtun með fjárfestingum á innlendum og alþjóðlegum markaði. Einkabankaþjónusta er veitt einstaklingum með mikil fjármálaumsvif og Verðbréfavaktin veitir almenna verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf. Eignastýring sér um rekstur lífeyrissjóða en einnig um rekstur skuldabréfasjóða og hlutabréfasjóða í sérstöku dótturfélagi, Rekstrarfélagi ÍSB.