William Duncanson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Farne, Salmon and Trout Ltd., dótturfélagi Alfesca í Skotlandi, segir í tilkynningu. Hann mun hefja störf þann 21. mars næstkomandi.

Farne framleiðir reyktan lax og tilbúna rétti úr laxi. Fyrirtækið er aðal birgir bresku verslanakeðjunnar Tesco fyrir reyktar laxaafurðir.

William Duncanson útskrifaðist með BA í hagfræði árið 1993 og stundaði síðan framhaldsnám í upplýsingafræðum. Hann er 34 ára af skoskum ættum, kvæntur og á eitt barn.

William starfaði fyrir fyrirtækið Uniq Group Prepared Foods í Bretlandi (Uniq) frá júlí 1994. Uniq rekur nokkrar verksmiðjur sem framleiða matvæli, þar á meðal reyktan lax. Fyrstu tvö árin vann William í söludeild en varð innkaupastjóri í september árið 1996 þar sem hann starfaði þar til í janúar 2000 er hann var gerður að rekstrarstjóra. Hann var síðan verksmiðjustjóri þar til í desember 2004.

Frá janúar 2005 hefur William verið framkvæmdastjóri Pinneys sem er dótturfélag Uniq og framleiðir lax. William hefur því unnið á ýmsum sviðum matvælaframleiðslu og hefur þannig öðlast víðtæka reynslu, sérstaklega í framleiðslu á sjávarafurðum, segir í tilkynningunni.