Þann 4. október næstkomandi hyggst Apple kynna næstu kynslóð af iPhone farsíma sínum, þá fimmtu í röðinni. Apple staðfesti kynninguna í dag og staðfesti þar með orðróm um að kynningin yrði haldin í byrjun næsta mánaðar.

Bloomberg greinir frá að ný útgáfa verður með betri myndavél og hraðari örgjörva en týpan á undan.

Farsími Apple var fyrst kynntur á árinu 2007 og er í dag mest selda vara fyrirtækisins. Vinsældir símans hafa gert Apple að verðmætasta fyrirtæki heims að markaðsvirði. Hlutabréfaverð í félaginu hefur hækkað um tæpa 3 dali á Wall Street í dag og er nú um 406 dalir á hlut. Hækkun á árinu nemur nú um 25%.