Nú rétt fyrir áramót var undirritaður orkusamningur á milli Rafveitu Reyðarfjarðar og Landsvirkjunar. Eins og flestum er kunnugt hafa orðið nokkuð umfangsmiklar breytingar á raforkumarkaði á Íslandi. Rafveita Reyðarfjarðar hefur staðið í ströngu upp á síðkastið við að móta sín innkaup og sölu á rafmagni í nýju umhverfi og meta valkosti. Niðurstaðan var sú að gengið var til samninga við Landsvirkjun um orkuöflun til næstu ára.

Samningarnir ná til þeirrar forgangsorku sem viðskiptavinirnir ætla að kaupa af Landsvirkjun á næsta ári og einnig til lengri tíma. Samningarnir eru nauðsynlegir í ljósi þeirrar opnunar á raforkumarkaðinum sem varð nú um síðustu áramót og einnig vegna tilkomu Landsnets sem tekur að sér flutning á rafmagninu. Á næstu vikum og mánuðum mun koma reynsla á þetta nýja sölufyrirkomulag, sem er allmiklu flóknara en eldra viðskiptaumhverfi segir í frétt á heimasíðu Fjarðarbyggðar.