*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Fólk 30. september 2021 10:58

Nýr rekstrar­stjóri Net­veitu hjá Origo

Jón Finnbogason hefur verið ráðinn til Origo sem rekstrarstjóri Netveitu, ráðgjafaeiningar í fjarskipta- og netöryggismálum.

Ritstjórn
Jón Finnbogason, rekstrarstjóri netveitu hjá Origo
Aðsend mynd

Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur ráðið Jón Finnbogason sem rekstrarstjóra Netveitu, sem er er svið innan Þjónustulausna Origo.

Jón starfaði áður sem vörustjóri hjá Símanum þar sem hann sá meðal annars um verðstýringu og rekstur á fjölbreyttu vöruframboði á fyrirtækjamarkaði. Þá hefur hann einnig unnið sem verkefnastjóri hjá Kaupþingi. Jón lauk MSc gráðu frá CBS í Kaupmannahöfn í Upplýsingastjórnun.

„Sérfræðiþekking starfsfólks Origo gerir okkur Netveituna í raun ráðgjafaeiningu þar sem við leysum fjarskipta- og netöryggisþarfir viðskiptavina. Mér finnst þetta mjög spennandi að fara með reynslu úr fjarskiptaheiminum enn dýpra í upplýsingatæknina og netöryggið með Origo. Samstarf við Syndis gerir okkur svo kleift að bjóða uppá heildstæðar lausnir í upplýsingatækni svo viðskiptavinir geti dafnað í sinni eigin starfsemi,“ er haft eftir Jóni í fréttatilkynningu.

Ottó Freyr Jóhannsson, forstöðumaður þjónustulausna Origo, segir ánægjulegt að fá Jón til liðs við félagið.

„Við erum afar ánægð að fá að njóta starfskrafta hans á þeirri vegferð sem Origo er á. Jón hefur víðtæka reynslu og menntun í upplýsingatækni sem mun nýtast vel bæði félaginu og viðskiptavinum. Við bjóðum Jón hjartanlega velkominn í Origo fjölskylduna.“

Stikkorð: Jón Finnbogason Origo Neteining