*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 6. janúar 2020 15:59

Nýskráðum bílum fjölgaði um fimmtung

Nærri 700 skráðir í desember. BL með 61% rafbílamarkaðarins 2019, en Nissan Leaf er vinsælasti rafbílinn.

Ritstjórn
Alls voru 194 Nissan Leaf rafbílar skráðir á göturnar á Íslandi á síðasta ári.
Aðsend mynd

Alls voru 699 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi í desember, rúmu 21% fleiri en í desember 2018, en á árinu í heild námu nýskráningar þessara bíla ríflega 13 þúsund hér á landi.

Greinilegt er að einstaklingar líta í síauknum mæli til rafbíla og annarra svokallaðra umhverfismildra lausna þegar kemur að bílakaupum og má geta þess að rafbílar rúmlega tvöfölduðu hlutdeild sína á innanlandsmarkaði milli áranna 2018 og 2019 þar sem hún fór úr 6% í rúm 13% prósent.

Hlutdeild tvinnbíla (Hybrid) jókst einnig á árinu, fór úr 7% í 13,3% á sama tíma og hlutdeild tengiltvinnbíla (PHEV) dróst saman um tvö prósentustig þar sem hún fór úr 17,5% í 15,5%, sem skýrist að mestu leyti af framboðsskorti. Þá minnkaði sala á hefðbundnum bensínbílum um 3,9% og dísilbílum um 7,2% milli ára.

BL er söluhæsta umboðið hér landi en Toyota er mest selda einstaka bílamerkið á Íslandi 30. árið í röð.

Nissan Leaf og Hyundai Kona vinsælustu rafbílarnir

Á síðasta ári voru 5.119 bílaleigubílar nýskráðir hér á landi, 27,3% færri en 2018 þegar þeir voru 7.039. Hins vegar nýskráðu bílaleigurnar 106% fleiri bíla í síðasta mánuði ársins eða alls 268 í stað 130 á árinu 2018. Þriðja árið í röð var Dacia Duster vinsælasti bílaleigubíllinn.

Eins og áður segir voru á árinu 13.091 fólks- og sendibíll nýskráðir. BL var með 27,2% hlutdeild á markaðnum í heild á liðnu ári sem skilaði fyrirtækinu í senn mestri hlutdeild á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, eða 24,8%, og á bílaleigumarkaði þar sem hlutdeildin var 31,1%. Hlutdeild BL á sendibílamarkaði var um 35,2% á árinu og var Renault með flestar nýskráningar hjá fyrirtækinu að því er fram kemur í tilkynningu frá BL.

Sé litið til árangurs einstakra merkja eða orkugjafa fólks- og sendibíla hjá BL á nýliðnu ári má geta þess að á rafbílamarkaði landsins var BL með tæplega 61% hlutdeild á árinu og var Nissan Leaf langsöluhæstur með 194 skráningar og dast á hæla hans kom Hyundai Kona með 187 skráningar.

Stikkorð: BL Nissan Leaf Hyundai Kona tvinnbílar