Í þeim tilgangi að skerpa áherslur í rekstri Sæplast samstæðunnar og skapa grundvöll að frekari eflingu og stækkun hennar bæði með innri og ytri vexti hefur Atorka Group hf. móðurfélag Sæplast hf. stofnað félagið Promens hf. sem yfirtekur þau dótturfélög Sæplast hf. sem ekki eru í umbreytingar ferli. Í framhaldi af þessari ákvörðun hefur Promens hf. keypt af Sæplast hf. dótturfélögin Sæplast Dalvík ehf, Tempru hf., Plasti-Ned BV., Sæplast Iberia S.A., Sæplast Holland BV., Sæplast Asia Ltd. og Sæplast UK Ltd. ásamt 63% hlut í Sæplasti India Ltd.

Kaupverðið byggir á verðmati Fjármálráðgjafar PriceWaterhouseCoopers. Eftir í Sæplast hf. eru dótturfélögin Sæplast Ålesund AS., Sæplast Norge AS. og Sæplast Canada Inc. Fyrirtækin sem bera Sæplast nafn og framleiða hverfisteypt tvíveggja einangruð ker munu áfram verða kennd við Sæplast og selja vörur sínar undir Sæplast vörumerkinu.

Í rekstri Sæplast hf. verður á næstu mánuðum lögð áhersla á að ljúka því umbreytingarferli sem dótturfélög þess eru í. Eins og áður hefur verið greint frá þá var ákveðið s.l. sumar að endurbyggja verksmiðju Sæplast Noregi sem framleiðir fríholt og baujur og ganga framkvæmdir við endurbygginguna í samræmi við áætlun og mun verulegur hluti þess búnaðar verða kominn í notkun á miðju ári. Í þeim tilgangi að auka sérhæfingu og skerpa á áherslum í rekstrinum í Noregi var hverfisteypuframleiðsla fyrirtækisins í Noregi sett í sjálfstætt félag Sæplast Ålesund AS. sem rekið verður í náinni samvinnu við Sæplast á Dalvík með sérstakri áherslu á sölu og markaðssetningu í Norður Evrópu.

Í rekstri Promens hf. verður lögð áhersla á vöxt félagsins með sókn á nýja markaði, aukið vöruframboð og stækkun rekstrareininganna. Jafnframt því er stefnt að frekari ytri vexti með kaupum á fyrirtækjum sem eiga samleið með núverandi rekstri. Rekstur Promens í dag byggir á tveim megin stoðum, annars vegar framleiðslu á umbúðum til varðveislu ferskleika og flutnings á matvælum og hins vegar á framleiðslu á hverfisteyptum vörum fyrir aðra framleiðendur á iðnaðarvöru, svo nefnd ?custom molding". Lögð verður áhersla á að styrkja báða þessa þætti í rekstri fyrirtækisins.

Á undanförnum misserum hefur verið lögð áhersla á að auka sölu á Sæplast vörum inn í annan matvælaiðnað en fiskiðnað. Á síðasta ári var hafin markaðssetning á keri sérhönnuðu fyrir kjötiðnað og hefur nú á fyrstu mánuðum þessa árs náðst góður árangur í sölu þess. Í lok síðast árs var sem liður í auknu vöruframboði fyrir íslenskan fiskiðnað keypt fyrirtækið Tempra hf. en það er leiðandi fyrirtæki á íslenskum markaði í framleiðslu á kössum fyrir fisk og fiskafurðir úr polystyren. Í öllum verksmiðjum félagsins hefur á undanförnu verið lögð aukin áhersla á ?custom molding" og er nú unnið að undirbúningi að stækkun verksmiðju Plasti-Ned í Hollandi sem er sérhæfð á þessu sviði. Þá er nú verið að stækka verksmiðju Sæplast Iberia á Spáni og unnið að undirbúningi að stækkun verksmiðju Sæplast India á Indlandi.