RVK Studios er nýtt framleiðslufyrirtæki sem stofnað var í lok árs í fyrra af þeim Baltasar Kormáki, Magnúsi Viðari Sigurðssyni og Sigurjóni Kjartanssyni. Fyrirtækið leggur áherslu á leikið efni fyrir sjónvarp og bíó.

RVK Studios er þessa dagana að hefja framleiðslu á sjónvarpsþáttaseríunni Ófærð en serían mun vera sú stærsta sem framleidd hefur verið á Íslandi til þessa. Þættirnir, sem eru 58 mínútur og verða tíu talsins, verða teknir upp næsta vetur.

Náðst hefur samkomulag við DR (Danmarks Radio) um meðframleiðslu á þáttaröðinni og má segja að það sé sögulegt þar sem danska sjónvarpið gerir ekki oft slíka samninga við aðrar ríkisstöðvar.

Aðrir meðframleiðendur og samstarfsaðilar eru RÚV, YLE í Finnlandi og Bavaria Film í Þýskalandi. Ófærð er byggð á hugmynd Sigurjóns Kjartanssonar og Baltasars Kormáks en Sigurjón fer fyrir handritshöfundateyminu sem einnig er skipað þeim Ólafi Egilssyni og Jóhanni Ævari Grímssyni.