Samkomulag er milli samningsaðila, vegna nýrra kjarasamninga, að leggja nýtt 0,13% launatengt gjald, áfallatryggingagjald, á launagreiðendur. „Komi þetta til framkvæmda mun ríkissjóður leggja endurhæfingarsjóði til sömu upphæð frá og með árinu 2009," segir um þetta gjald í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna samninganna.

„Ríkisstjórnin mun í tengslum við þetta beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggi að greiðslur úr endurhæfingarsjóði, sjúkra- og fræðslusjóðum stéttarfélaga sem ganga til greiðslu kostnaðar við endurhæfingu, heilbrigðisþjónustu og tiltekna þjónustu fagaðila ásamt starfsmenntun og fullorðinsfræðslunámskeiðum sem staðfest hafa verið af menntamálaráðuneytinu teljist ekki til skattskyldra tekna hjá viðkomandi einstaklingum," segir enn fremur í yfirlýsingunni.

„Jafnframt mun ríkisstjórnin taka upp viðræður við aðila um samræmingu í skattalegri meðferð greiðslu kostnaðar úr þessum sjóðum vegna forvarnar og starfsmenntunar."