Samþykkt að auka hlutafé Nýherja um allt að 120 millj. kr. með sölu nýrra hluta á aðalfundi félagsins síðustu helgi. Núverandi hluthafar falla frá forkaupsrétti sínum til kaupa á hlutum þessum.

Stjórn félagsins ákveður útboðsgengi bréfanna og sölureglur hverju sinni. Skal áskrift fara fram samkvæmt ákvæðum samþykkta félagsins og V. kafla hlutafélagalaga. Engar hömlur skulu vera á viðskiptum með hina nýju hluti.

Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Heimild þessa getur stjórn Nýherja nýtt innan þriggja ára frá samþykkt hennar.

Í ræðu sinni á aðalfundi Nýherja sagði Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður félagsins, að ekki væri víst að nýta þyrfti heimildina til fulls að sinni. „Hugmyndin er sú að aflað verði nýs hlutafjár hjá nýjum og núverandi hluthöfum og varið til greiðslu skulda. Bankarnir annað hvort kaupi hluta aukningarinnar eða veiti víkjandi lán. Hvor aðgerðin sem valin yrði myndi verða greidd með lækkun á langtímalánum bankanna. Þannig væru skuldir lækkaðar um nálægt 1.500 milljónum króna,“ sagði Benedikt.