Til stendur að byggja nýtt kjarnorkuver að andvirði 517 milljarða króna í Yueyang borg í Kína, sem er í Hunan héraðinu, en greint var frá því í kínverskum fjölmiðlum.

Ekki kom fram hvort kínversk framleiðsla verður notuð við gerð kjarnorkuversins, en aðilar frá Bandaríkjunum, Evrópu og Rússlandi munu horfa til tækifæra í Kína, þar sem fáar aðrar þjóðir byggja ný kjarnorkuver um þessar mundir.

Ríkisstjórn Kína hyggst byggja tugi nýrra kjarnorkuvera á næstu árum, en orkuskortur hefur verið þar í kjölfar efnahagsuppsveiflu. Kínverjar líta á kjarnorku sem umhverfisvæna orku, samanborið við nýtingu kola, sem nú er gert þar í miklum mæli.