Í verðmati greiningardeildar Landsbankans á Fjárfestingarfélaginu Atorku er eigið fé félagsins uppreiknað. Miðað er við eignasafn félagsins í 9 mánaða uppgjöri og er leiðrétt fyrir breytingum sem orðið hafa á hlutabréfasafni sem og verðbreytingum á mörkuðum. Skráð hlutabréf eru metin á markaðsvirði miðað við lokagengi 27. desember. Eign Atorku í Lífi er metin með sjóðstreymisgreiningu en eign á hlutabréfum í Sæplasti er metin á bókfærðu virði. Uppreiknað er virði eigin fjár Afls fjárfestingarfélags.

"Að lokum er lagt mat á rekstur Atorku til framtíðar með því að áætla ávöxtun eignasafnsins umfram ávöxtunarkröfu sem Greiningardeild gerir til eigin fjár. Markmið Atorku er að skila 15% ávöxtun á eigið fé, og er gert ráð fyrir að félagið nái þeim markmiðum sínum, en við gerum 12,4% ávöxtunarkröfu til eigin fjár. Nái félagið markmiðum sínum verður umframarðsemi safnsins því 2,6%," segir í Vegvísi Landsbankans.