Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti fyrir skömmu tillögur sem miða að gjörbreyttu húsnæðiskerfi.

„Ég get sagt fyrir mig að ég tel að það húsnæðiskerfi sem við búum við í dag sé ekki ásættanlegt," segir Eygló. "Ég tel að það sé alveg sama hvort þú kaupir húsnæði, leigir eða sért með búseturétt þá býrðu við óöryggi. Einn af þeim lærdómum sem við getum dregið af bankakrísunni í heiminum er hvað húsnæðiskerfið skiptir miklu máli þegar kemur að efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika. Orsökina var að finna í röngum ákvörðunum sem teknar voru m.a. á húsnæðismarkaðinum í hinum vestræna heimi, í Bandaríkjunum, á Írlandi, á Spáni. Sama máli gegndi hér á landi en vandinn var þó víðtækari."

Ert þú persónulega sátt við þessar tillögur?

"Ég er mjög ánægð með margt og nefni til dæmis tillöguna um að jafnvægisreglan, sem gerir ráð fyrir að jafnvægi ríki milli útlána og fjármögnunar þeirra, verði almenna reglan fyrir öll húsnæðisveðlán í landinu. Ég er mjög ánægð með að hér verði stefnt að því að sameina vaxta- og húsaleigubætur í húsnæðisbótakerfi. Ég er líka mjög sátt við tillögurnar sem snúa að framboðshliðinni, að hér verði stigin ákveðin skref í þá átt að auka framboð á húsnæði og þá sérstaklega leiguhúsnæði.

Ég er líka mjög glöð að sjá þessa tillögu um að efla húsnæðissamvinnufélögin og bæta lagaumgjörð þeirra. Mínar hugsjónir byggjast meðal annars á samvinnuhugsjóninni og ég tel að við eigum að vera með öflugan þriðja geira og þá skiptir máli að við séum með öflug húsnæðissamvinnufélög. Það er form sem hentar mjög vel og er einhvers staðar á milli leigumarkaðarins og séreignarformsins.

Síðan eru líka í skýrslunni hlutir sem eru erfiðir fyrir mig sem framsóknarmann eins og til dæmis tillagan um að breyta Íbúðalánasjóði varanlega og skipta honum upp. En ég vissi vel að þetta væri eitt af stóru verkefnum velferðarráðuneytisins og ég geri mér fulla grein fyrir því að það er ekki hægt að víkja sér undan því að taka erfiðar ákvarðanir."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Eygló Harðardóttur ráðherra. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .