Hinn nýkjörni Bandaríkjaforseti Barack Hussein Obama II þarf ekki að aka um á neinni druslu þegar hann skreppur í bæinn. Fyrir hann hefur nefnilega verið smíðaður sérútbúinn bíll af gerðinni Cadillac Presidential Limousine sem hefur gælunafnið „skepnan” eða the Beast.

Forsetabíllinn er langt frá því að vera einhver hversdagsútgáfa samkvæmt samantekt á vefsíðu Telegraph. Hann er brynvarinn með skotheldu átta tommu þykku gleri í gluggum. Einnig skotheldum dekkjum með Kevlar styrkingu, eða samskonar efni og er í skotheldum vestum. Þá er hann búinn táragas-byssum og ýmsum örðum búnaði sem haldið er leyndum af öryggisástæðum.

Forsetabíllinn er glæný hönnun frá grunni og tekur við af DTS Presidential Limousine sem kom fram á sjónarsviðið árið 2004. Hann er heldur hærri en fyrrirennarinn, m.a. til að tryggja forsetanum betra útsýni og þægilegri umgengni.

Einn af fyrstu fyrirmönnum í Bandaríkjunum til að taka Cadillac í sína þjónustu var Woodrow Wilson forseti sem fór sigurakstur á slíkum bíl um götur Boston árið 1919.

Eftir 1938 nefndi Cadillac flaggskip sín eftir bresku farþegaskipunum  „Queen Mary" og „Queen Elizabeth". Þetta voru bílar með niðurfellanlegu þaki og að sjálfsögðu brynvarðir. Forsetarnir Franklin D. Roosevelt, Harry S. Truman og Dwight D. Eisenhower notuðu m.a. slíka bíla á sinni tíð.

Árið 1956 tóku við aðeins nettari bílar hjá Cadillac sem nefndir voru Queen Mary II og Queen Elizabeth II. Slíkir bílar þjónuðu líka Eisenhower sem og John F. Kennedy og Lyndon B. Johnson í þeirra forsetatíð. Hætt var að framleiða báðar þessar gerðir árið 1968.

Þá má líka geta þess að Ronald Reagan ók Cadillac Fleetwood limousine og Bill Clinton var á Cadillac Fleetwood Brougham – Presidential Series sem var sameiginleg hönnun og smíði General Motors og Cadillac. Þá fékk George W. Bush bíl af gerðinni Cadillac Deville Presidential árið 2001 og síðan fékk hann Cadillac DTS Presidential model árið 2004 sem var fyrirennari hins nýja bíls Obama.