Barack Obama Bandaríkjaforseti fór í sína fyrstu opinberu utanlandsferð í gær til kanadísku nágrannana í norðri. Obama virtist vera nokkuð tvístígandi um þau skilaboð sem hann ætlaði að senda Kanadamönnum. Umhverfisverndarsinnar höfðu hvatt hann mjög til að beina sjónum að gríðarlegri olíusandsvinnslu Kanadamanna, en Obama er aftur á móti vel meðvitaður um nauðsyn á eigin orkuöflun ríkjanna.

Obama ákvað þó með afar diplómatískum hætti að slá nett á hendur nágrannanna og sagði að olíusandsvinnslan skildi eftir sig stór kolefnisfótspor. Líkti hann olíusandsvinnslunni síðan við kolavinnslu Bandaríkjamanna. Sagðist hann í viðtali hjá kanadíska sjónvarpinu (Canadian Broadcasting Corp.) hafa áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi vinnsla hefði á umhverfið.

Stephen Harper forsætisráðherra Kanada sagði að orkuöryggismál og mikil olíusandsvinnsla landsins yrðu forgangsmál í viðræðum við Bandaríkjaforseta. Búist er við að Harper reyni að sannfæra Obama um að olíusandsvinnslan sé örugg og áreiðanleg.

Gagnrýnendur segja að olíuvinnslufyrirtækin spúi vaxandi magni af gróðurhúsagastegundum út í loftið vegna olíusandsvinnslunnar og hún ógni ám og skógum í Alberta fylki. Haft er eftir sérfræðingum að hver tunna af olíu sem unnin er úr olíusandi skili þrefalt meiri loftmengun en vinnsla á olíu úr jörðu.