Barack Obama bar sigurorð af keppinauti sínum, Hillary Clinton, í forkosningum demókrata í fylkinu Wyoming, en kosningarnar fóru fram í nótt. Obama hlaut 61% atkvæða en Clinton 38%.

Obama hefur nú fleiri kjörmenn á bakvið sig en Clinton, en talið er að sigur Obama í nótt hafi reynst býsna sterkur þar sem Clinton náði að mynda nokkra stemningu í kringum framboð sitt eftir sigra í Texas og Ohio. Wyoming er þó eitt þeirra fylkja sem hefur einna fæsta kjörmenn, eða aðeins um 12 talsins.

Obama hefur náð til sín alls 1578 kjörmönnum, en Clinton 1468. Alls þarf 2025 kjörmenn til að tryggja sér útnefningu flokksins. Repúblikanaflokkurinn hefur þegar valið John McCain sem frambjóðanda sinn.