Barack Obama, forseti Bandaríkjanna sagði í gær að bankar og fjármálafyrirtæki á Wall Street hefðu ekki sýnt næg merki um umbætur og að hann óttaðist ennþá áhættusækni bankanna sem að hans mati leiddu til þeirra erfiðleika sem nú eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Þetta sagði Obama í viðtali við PBS sjónvarpsstöðina vestanhaf en hann kynnti nýlega ný drög að endurbættu regluverki fjármálafyrirtæka sem meðal annars felur í sér aukið eftirlit opinberra aðila yfir starfsseminni.

„Við höfum enn ekki sé nein merki þess að þeir sem starfa á Wall Street séu að minnka áhættusækni,“ sagði Obama.

„Maður hefur ekki á tilfinningunni að það hafi orðið nein breyting á kúltúr eða hegðun þeirra sem starfa í geiranum, þrátt fyrir það sem á undan er gengið. Þess vegna er mikilvægt að endurskoða reglur um eftirlit sem fyrst.“

Obama sagði að nýjar reglur um opinbert eftirlit með fjármálastarfssemi myndu hafa það að leiðarljósi að koma í veg fyrir að „Wall Street taki miklar og hættulega áhættur,“ eins og hann orðaði það í viðtalinu.

Þá sagði Obama jafnframt að vald hluthafa, sérstaklega minni hluthafa, yrði aukið og þeir gætu, og ættu, meðal annars að beita sér gegn háum bónusgreiðslum til stjórnenda.

Þessi ummæli Obama koma fréttaskýrendum vestanhafs ekki á óvart en hann hefur gagnrýnt mjög háar bónusgreiðslur til stjórnenda fjármála- og tryggingafélaga – félaga sem jafnvel hafa þurft neyðarlán frá ríkinu til að halda áfram starfssemi. Þannig má nefna að á síðasta ári varði bandaríska alríkisstjórnin nokkuð hundruð milljörðum dala í neyðarlán til fyrrgreindra fyrirtækja en á sama tíma greiddu fjármálafyrirtæki á Wall Street um 18 milljarða dala í bónusgreiðslur til æðstu stjórnenda.

Obama var sérstaklega spurður út í endurgreiðslur fjármálafyrirtækja á þeim neyðarlánum sem þau þáðu á síðasta ári. Fjölmiðlar og greiningaraðilar vestanhafs eru margir hverjir sammála um að félögin hafi hraðað endurgreiðslum eftir því sem hægt er til að losna við afskipti hins opinbara af rekstri þeirra en á meðan þau skulduðu ríkinu hafði ríkið töluvert að segja með reksturinn.

Obama sagðist vera beggja blands í þessu máli. Vissulega væri það gott ef fjármálafyrirtækin væru að sýna hagnað og hefðu tækifæri til að endurgreiða lánin. Hann sagðist þó vona að hagnaðurinn væri ekki skammtímahagnaður en hann óttaðist að vissu leyti að svo væri.