Það mun taka nokkur ár þangað til menn geta farið að draga lærdóm af núverandi óróa á fjármálamörkuðum.

Þetta sagði Nout Wellink, sem á sæti í bankaráði Evrópska seðlabankans á ráðstefnu háskólans í Groningen í dag Reuters fréttastofan greinir frá.

„Það er of snemmt að gefa nákvæma skýringu á ástæðu og eðli nýlegra vandamála á fjármálamörkuðum,“ sagði Welling, sem einnig er seðlabankastjóri Hollands.

„Staðreyndin er sú að markaðir eru enn brothættir og að öllum líkindum munu líða nokkur ár áður en við getum greint ástæðurnar og sett hlutina í samhengi,“ í ræðu sinni í dag sem birt er á heimasíðu Seðlabanka Evrópu.

Þá er greint frá því að Welling hafi sagt í fyrirspurnartíma að fjármálamarkaðir ættu að horfa fram hjá skammtímasjónarmiðum og gögnum.

„Fjármálamarkaðir ættu ekki að þurfa að bregðast við öllum breytingum í umhverfi þeirra [...] Þeir ættu að hafa vit á að sjá heildarmyndina,“ hefur Market News fréttaveitan eftir Welling.

Þá sagði hann mikilvægt að halda verðbólgumarkmiðum sem lægstum.