„Þessi bók er auðlesin og skemmtileg en þörf áminning um mikilvægi jafnræðis á vinnustöðum og jafnvæginu sem þarf að ríkja þar svo allir geti blómstrað á vinnustaðnum,“ segir athafnakonan Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu. Hún ritaði inngangsorð að íslenskri þýðingu bókar Sheryl Sandberg, Lean In. Bókin kom út í Bandaríkjunum í fyrravor og í íslenskri þýðingu hér á landi um haustið undir titlinum Stígum fram.

Álitsgjafar Viðskiptablaðsins telja þetta bók ársins um viðskipti og efnahagsmál. Bókin byggir á Ted-fyrirlestrum Sandberg þar sem hún velti fyrir sér ástæðu þess að svo fáar konur eru í leiðtogahlutverkum og kemur með ábendingar um það hvernig konur geti látið rödd sína hljóma. Bókin vakti fljótt athygli, fékk rífandi dóma og var lengi í fyrsta sæti á metsölulista New York Times.

Nánar má lesa um bókina í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.