Bandaríski herinn hefur nú tekið í notkun nýja ofurtölvu og á m.a. að nýta vinnslugetu hennar til að líkja eftir hvað á sér stað sekúndubrotið eftir að kjarnorkusprengja springur og rannsaka loftlagsbreytingar.

Örgjafatækni sem ættuð er úr Sony PlayStation 3-leikjatölvunni er lykill þess að tölva þessi, sem kölluð er Roadrunner, hefur tvöfalt meiri vinnslugetu en fyrri methafi í þessum efnum.

Um er að ræða tölvukubb sem notaður var í leikjatölvuna en hefur verið breytt og hann endurbættur í því skyni að gera Roadrunner að öflugustu tölvu heims, að því er fram kemur í New York Times.

Um er að ræða tæknibyltingu því tölvan brýtur niður eldri múra varðandi reikningsgetu tölvubúnaðar en fyrri methafi, IBM-tölvan Bluegene/L, náði að gera billjarð (10 í fimmtánda veldi) útreikninga á sekúndu.

Eftir að hafa náð gegnum svo kallaðan petaflop-múr (Eitt petaflop jafngildir 1000 milljón milljón kommutöluaðgerðum á sekúndu), gera vísindamenn sér nú vonir um að þokast nær exaflop, zettaflop, yottaflop og xeraflop.

Vinnur á einum degi 46 ársverk allra jarðarbúa

Roadrunner er samstarfsverkefni IBM og Los Alamos-rannsóknarstofunnar og getur á einum degi afkastað það sem taka myndi alla jarðarbúa 46 ár að ljúka við, myndu þeir vinna allan sólarhringinn allan ársins hring.