Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla með fram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Orka náttúrunnar hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal fyrir N1. Nú stefnir ON að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur einnig aukið upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smárforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún sé laus eða upptekin.

N1 rekur alls 95 stöðvar á Íslandi og N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum.

Markmiðið að hraða uppbyggingu

Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Tilgangur samstarfssamnings er að skilgreina helstu réttindi og skyldur fyrirtækjanna við að byggja og reka hlöður ON hjá N1. Þetta er rammasamningur þar sem yfir 20 stöðvar N1 í öllum landshlutum koma til álita til uppsetningar á hlöðum. Samningurinn hindrar fyrirtækin á engan hátt í að eiga samstarf við aðra á þessu sviði.

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON segir við tilefnið: „Þetta samkomulag getur orðið rafbílaeigendum og þar með umhverfinu happadrjúgt. Við hjá ON höfum aflað okkur mikillar reynslu í uppsetningu og rekstri á hlöðum fyrir rafbíla og sá sem ekur um landið býr að þéttu neti N1 stöðva við þjóðveginn. Það þarf að varða hringveginn með hlöðum og hér leggja saman krafta sína tvö öflug fyrirtæki sem geta farið langt með verkefnið á skömmum tíma. Hlaða er nú komin í Borgarnes og með hentugri legu N1 stöðva komumst við auðveldlega til Akureyrar, þar sem við eigum þegar tvær hlöður. Aðalatriðið er að láta ekki umræður um málin duga, heldur að láta verkin tala.“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 bætir við: „Við viljum að viðskiptavinir N1 geti nálgast þá orkugjafa sem þeir þurfa á þjónustustöðvum okkar og þetta samkomulag við ON þýðir að rafbílseigandi getur hlaðið bílinn fyrir utan þjónustustöðina á meðan hann fær sér vörur og veitingar inni á stöðinni. Það tekur um 20 mínútur að hlaða rafbíl og það er mikilvægt fyrir ökumann og farþega að geta slakað á í notalegu umhverfi, fengið sér kaffibolla eða aðra hressingu, á meðan bíllinn er í hleðslu.

Okkar hlutverk hjá N1 er að bjóða upp á hverja þá orku sem þörf er fyrir bæði á plani og inni í versluninni og ákváðum við að ganga til liðs við ON þar sem fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla Við hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni og taka á móti rafbílaeigendum með fram hringveginum í framtíðinni,“ tekur hann fram.