Skrifað hefur verið undir samkomulag á milli Og Vodafone og hluthafa í Margmiðlun um kaup Og Vodafone á öllu hlutafé í fjarskiptafélaginu Margmiðlun. Kaupverðið er um 310 milljónir króna þar af eru 150 milljónir króna greiddar með peningum. Eftirstöðvar kaupverðsins greiðir Og Vodafone með útgáfu nýrra hluta að nafnverði 46 milljónir króna til seljenda. Samkvæmt samkomulaginu eiga seljendur rétt til að selja Og Vodafone þá hluti sem þeir veita viðtöku að liðnum 24 mánuðum á genginu 4,2. Kostgæfnisathugun hefur farið fram en samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda um samruna félaganna.

Í tilkynningu sem að Og Vodefone sendi frá sér segir Óskar Magnússon, forstjóri Og Vodafone, að markmiðið með kaupunum sé að ná fram aukinni samlegð af rekstri félaganna. Félögin hafa að undanförnu átt margháttað samstarf. T.a.m. hefur Margmiðlun endurselt ADSL tengingar Og Vodafone. ?Markmiðið með sameiningu félaganna undir nafni Og Vodafone er einnig að bæta þjónustu við viðskiptavini á markaði þar sem hörð samkeppni ríkir við fyrirtæki með yfirburða markaðsstöðu. Stöðugleiki í rekstri kerfa Og Vodafone er mjög góður og Margmiðlun hefur getið sér gott orð fyrir afburða þjónustu við viðskiptavini. Innan skamms er t.d. stefnt að því að opna nýja og öfluga þjónustumiðstöð sameinaðs félags fyrir internetviðskiptavini. Þá munu viðskiptavinir Margmiðlunar njóta góðs af fjölbreyttu vöruframboði Og Vodafone. Samruninn krefst þó undirbúnings og verður rekstur félaganna áfram í tvennu lagi um nokkra vikna skeið," segir Óskar.

Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri Margmiðlunar, segir að með kaupum Og Vodafone sé innsiglað náið og gott samstarf félaganna. Bæði félögin eru í góðum rekstri og standa frammi fyrir miklum tækifærum. Ólíkur styrkleiki þeirra gerir það að verkum að sameinuð eru þau mun betur í stakk búin til að nýta tækifærin, viðskiptavinum beggja félaga til hagsbóta.

Margmiðlun hefur verið starfrækt um 10 ára skeið sem netþjónustufyrirtæki en hóf fyrir skömmu að veita almenna símaþjónustu um eigin símstöð. Félagið veitir á fimmta þúsund einstaklingum og fyrirtækjum fjarskiptaþjónustu og er yfirgnæfandi meirihluti þeirra ADSL notendur, auk þess sem þúsundir heimila nota innhringigátt félagsins fyrir Internet. Hjá Margmiðlun starfa rétt yfir 20 manns. Búast má við einhverri fækkun starfsmanna en farið verður ítarlega yfir þau mál sem fyrst með starfsfólki Margmiðlunar.

Og Vodafone veitir alhliða fjarskiptaþjónustu og eru samlegðaráhrif af sameiningu félaganna umtalsverð. Áætluð velta Margmiðlunar árið 2004 er hátt í 200 milljónir króna. Að lokinni sameiningu félaganna er áætlað að EBITDA áhrifin á rekstur Og Vodafone verði jákvæð um 70 til 80 milljónir króna. Kaupin munu þó hafa áhrif til lækkunar EBITDA Og Vodafone á þessu ári vegna sameiningarkostnaðar sem er áætlaður 90 milljónir króna samtals.

Í tengslum við kaupin hefur stjórn Og Vodafone ákveðið að boða til hluthafafundar þar sem leitað verður eftir samþykki hluthafa um hlutafjáraukningu vegna viðskiptanna.